Sunday, November 29, 2009

Þakkargjörðarhátíð, dans og störf

Í tilefni þakkargjörðarhátíðarinnar (Thanksgiving) þá fór ég í gamla skólann minn Webster. Á hverju ári halda þau upp á hátíðina með að gefa nemendum að borða, kalkun, kökur og annað góðgæti. Ég gat ekki staðist svo ég mætti eldsnemma og hjálpaði Agniezsku og Manuleu vinkonum mínum að skreyta og borðaði svo með þeim og Andreeu. Æðislegt að hitta vinkonurnar þar sem ég hef lítið hitt þær því þær eru svo uppteknar í skólanum. Eftir matinn hjálpuðum við svo að taka til og að lokum sáum nýju íbúð Agniezsku sem er í grennd við skólann.

Ég hitti Manuelu þennan manuðinn og fór með henni í smá verslunarleiðangur. Markmiðið var að kaupa buxur. Að finna buxur sem smellpassa er stundum mission impossible, ég vissi þó um eina búð í Kagran, XANADA, sem selur buxur (ekki bara fyrir grannar stelpur). Ég fór með hana þangað og viti menn, hún fann buxur. Þar sem ég lifi á atvinnuleysisbótum stóðst ég mátið og keypti ekki neitt en var glöð að hafa hjálpað henni að finna það sem hún var að leita eftir. Við fengum okkur svo ódyran kínverskan mat og spjölluðum. Ég átti svo að kenna dans um kvöldið svo við skelltum okkur í bæinn, þar sem Christkindlmarkt (jólamarkaður) fyrir framan ráðhúsið.

Ég dýrka að það er alltaf e-h að gerast fyrir framan ráðhúsið. Og þvílík sjón. Jólaljós alls staðar, jólatónlist, adventukransar, hringekja fyrir börnin og básar að selja ýmsan jólaglaðning. Það vinsælasta fyrir fullorðna er þó jólaglöggið, glühwein. Þar safnast fullorðnirnir saman svo stundum er erfitt að komast fram hjá. Ég hef farið á jólamarkaðinn á hverju ári en tók í fyrsta sinn eftir tölunum (líkt og á dagatali) í gluggunum á ráðhúsinu. Ég varð forvitin og vildi vita hvað myndi birtast á 24.des, er þá eitthvað í glugganum? Verð að fara í desember og skoða þetta nánar.

Danskennslan hefur gengið upp og niður. Ekki margir að nenna að mæta í tíma, kannski vegna skóla/vinnuanna. Efast um að það sé vegna veðursins því hér er 10 stiga hiti, rosa fínt veður. Ég tók yfir tíma Özru, hip hop fyrir krakka, streetdance og svo minn eigin jazz tíma. VÁ hvað það tók á. Hreyfingarnar eru svo allt öðruvísi en í jazzballet. Það var þó ekki það eina sem gerði útaf við mig. Hip hop fyrir krakka var martröð því einn strákurinn vildi ekki hlýða, er örugglega með athyglissýki. Azra hafði varið mig við honum. Ég hitaði upp með þeim og kenndi þeim eina rútína, leyfði þeim svo að leika boltaleik og gera sinn eigin dans og freestyle í lokin. Pant ekki vera afleysingakennari aftur fyrir krakka. Engin virðing. Ber virðingu fyrir afleysingakennurum eftir þessa reynslu. Hinir tímarnir gengu þó mjög vel. Ég var mjög fegin að hafa ekkert plan daginn eftir því ég var með þvílíkar harðsperrur.

Mér var boðið í afmæli Claudiu, annars danskennara sem var að sjálfsögðu haldið í Casomai. Þrátt fyrir góðan mat og drykk þá þekkti ég bara 2 manneskjur svo ég fór snemma heim. Hefði viljað taka vin með (bara ef Frikki hefði verið í Vin á þessum tíma), þá hefðum við skemmt okkur konunglega. En svona er þetta.



Gömlu vinnufélagarnir hringdu í mig og buðu mér upp á drykk með þeim. Ég hitti þau á barnum Frankies og spjallaði allengi við þau, við fórum svo á Cafe Leopold en þar var ekkert spes stemmning svo ég og Tina vorum samferða heim. Alltaf gaman að hitta fólk.

Búin að vera atvinnulaus í 2 mánuði þann 15.des, er alltaf að sækja um vinnu en ekkert gengur. Fór þó í nokkur starfsviðtöl og hjálpaði einum fjölmiðlamanni en það gekk ekki (var í raun fegin því ég fílaði ekki að vinna fyrir hann). Nýt tímans með Lumi, kenna dans og skrifa pressugreinar. Er líka að vinna í öðru verkefni, sem er á tilraunastigi svo læt ykkur vita meira seinna þegar það er komið lengra.

Er komin í smá jólaskap eftir að ég og Lumi horfðum á Home Alone, santa clause 2 og Christmas Vacation en vantar enn snjóin og jólafílinginn. vonandi fæ ég hann í desember. Það verður þó aldrei eins og þegar maður var krakki. Þegar maður beið spenntur eftir næsta degi til að sjá hvað maður fékk í skóinn og opna jóladagatalið, þegar allt efni í sjónvarpi var jólatengt sem og lögin í útvarpinu og þegar skólatíminn var eyddur í skraut og sögur.

Mikilvægustu fréttirnar:
Kem heim 17.desember og verð til 8.janúar..... get ekki beðið.

sakna ykkar

No comments: